Fréttir 2009

20/11 2009

Slökkviliðsmenn gefa út bók um Loga, Glóð og Brennu-Varg

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur gefið út myndskreytta bók um slökkviálfana Loga og Glóð og illvirkjann Brennu-Varg. Slökkviliðsmenn munu færa átta ára börnum um allt land bókina að gjöf í Eldvarnaátakinu sem stendur yfir 20.-27. nóvember en þá heimsækja slökkviliðsmenn alla grunnskóla landsins.
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands er einn helsti styrktaraðili Eldvarnaátaksins.

Bókin ber heitið Brennu-Vargur og er spennusaga. Logi og Glóð koma óvænt fram á sjónarsviðið þegar heimili þeirra eyðist í eldi. Sigfinnur slökkviliðsstjóri tekur þau upp á arma sína og býður þeim að búa í slökkvistöðinni í Bænum, þar sem sagan gerist. Systkinin gerast þá aðstoðarmenn slökkviliðsins enda eru þau búin þeim hæfileika að geta vaðið eld og brennistein eins og ekkert sé. Í ljós kemur að Brennu-Vargur gengur laus í Bænum. Hann er fjarskyldur ættingi Loga og Glóðar og hefur ekkert gott í hyggju. Þegar Brennu-Vargur lætur til skarar skríða á ný reynir mjög á snarræði og hugrekki Loga og Glóðar.

Höfundarnir, Garðar H. Guðjónsson, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir og Þrúður Óskarsdóttir, gerðu bókina að beiðni LSS. Vonir LSS standa til þess að börnin og foreldrar þeirra hafi gaman af sögunni um Loga, Glóð og Brennu-Varg. En hún er einnig full af fróðleikskornum um eldvarnir sem börnin geta notað til þess að leysa Eldvarnagetraunina sem er að finna aftast í bókinni. Þeir sem skila inn réttum lausnum geta fengið veglega vinninga sem afhentir verða á 112-daginn, 11. febrúar.

20/11 2009

Logi, Glóð og brunamálaráðherra í Eldvarnaátakinu

Svandís Svavarsdóttir brunamálaráðherra og slökkviálfarnir Logi og Glóð hafa gengið til liðs við Eldvarnaátak Landssambands slökkiliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og munu aðstoða við að fræða börn og fullorðna um eldvarnir.

Slökkviliðsmenn heimsækja átta ára börn í grunnskólum landsins dagana 20.-27. nóvember og fræða börnin og fjölskyldur þeirra um helstu atriði eldvarna. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og ráðherra brunamála, bregður sér í gervi slökkviliðsmanns og tekur þátt í fræðslunni á fyrsta degi og sýnir slökkviliðsmönnum þannig samstöðu í baráttu þeirra fyrir bættum eldvörnum.

Slökkviálfarnir Logi og Glóð verða Svandísi og slökkviliðsmönnum til halds og trausts. LSS hefur gefið út myndskreytta bók um þau systkinin og baráttu þeirra við Brennu-Varg og fá öll átta ára börn í landinu hana að gjöf. Þeim gefst einnig kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni þar sem vegleg verðlaun geta verið í boði fyrir þá sem skila réttri lausn. Höfundar bókarinnar um Loga, Glóð og Bennu-Varg eru Garðar H. Guðjónsson, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir og Þrúður Óskarsdóttir.

Börnin taka söguna af Loga, Glóð og Brennu-Vargi með sér heim ásamt fræðsluefni um eldvarnir. Þannig nær átakið til þúsunda heimila i landinu. Auk þess mun LSS birta auglýsingar á næstunni til þess að minna á mikilvægasta atriði eldvarna á heimilum; reykskynjarana.

Kannanir sem Gallup hefur gert fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Brunamálastofnun sýna að eldvörnum á heimilum landsmanna er mjög ábótavant. Þriðjungur heimila hefur engan eða aðeins einn reykskynjara þótt fjölmörg dæmi séu um að þeir hafi bjargað mannslífum á ögurstundu.

Reykskynjarar eru með ódýrustu öryggistækjum og uppsetning tekur fimm til tíu mínútur. Vælið í reykskynjara getur ráðið úrslitum um hvort fólk lifir eða deyr þegar eldur kemur upp. Að jafnaði verða tveir Íslendingar eldsvoðum að bráð á hverju ári og enn fleiri verða fyrir heilsutjóni. Eignatjón í eldsvoðum nemur að jafnaði um 1.500 milljónum króna árlega.

LSS stendur að Eldvarnaátakinu í samvinnu við TM, slökkviliðin í landinu, Brunamálastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og fleiri. Könnun Gallup frá 2008 sýnir að 97 prósent landsmanna telja Eldvarnaátakið mikilvægt. Hún sýnir jafnframt að svipað hlutfall ber mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

15/10 2009

EBÍ greiðir 300 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga 15. október

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands greiðir í dag samtals 300 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum.
EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Með framlagi þessa árs hefur félagið samtals greitt aðildarsveitarfélögunum rúma 3,3 milljarða króna.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða tæpar 40 milljónir króna. Til Kópavogs renna 26 milljónir, Reykjanesbær fær rúma 21 milljón í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 14 milljónir, Vestmannaeyjabær 12 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 10 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu.

Einn helsti tilgangur EBÍ er að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða og styðja alhliða forvarnarstarf í sveitarfélögum. Langstærsta verkefnið sem félagið hefur unnið að er forvarnarverkefni í leikskólum landsins þar sem slökkviálfarnir Logi og Glóð leika aðalhlutverkið. EBÍ hefur fjármagnað gerð vandaðs fræðsluefnis í þessu skyni fyrir öll slökkvilið landsbyggðarinnar frá haustinu 2007. Þá hefur félagið gefið út fræðslubæklinga um eldvarnir heimilanna sem standa slökkviliðum til boða endurgjaldslaust. Í vor kom út bók sem unnin var í samvinnu við Brunamálastofnun um viðbrögð við gróðureldum.

Nánari upplýsingar veitir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ. (Sími: 544-5070) og á heimasíðu EBÍ www.brunabot.is.

15/10 2009

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ lokið

Á fundi stjórnar EBÍ 27. sept. s.l. var úthlutað úr Styrktarsjóði EBÍ. Veittir voru styrkir til 7 verkefna samtals að upphæð 3,3 milljónir. Yfirlit yfir veitta styrki má sjá hér.
Frá því Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1996 hafa 60 sveitarfélög hlotið styrk til 157 verkefna. Heildarupphæð styrkja er 46 milljónir.

24/9 2009

Útgreiðsla ágóðahlutar 15. október 2009

Þann 15. október n.k. verða greiddar út 300 milljónir króna í ágóðahlut til sveitarfélaganna. Á aukafundi Fulltrúaráðs EBÍ þann 20. mars s.l. var samþykkt stefnumörkun um útgreiðslu ágóðahlutar til sveitarfélaganna fyrir árin 2009 og 2010. Samþykkt var að ágóðahlutur ársins 2009 yrði 300 milljónir króna og þá hefur félagið greitt til sveitarfélaganna í formi ágóðahlutar 3.230 milljónir frá árinu 1998.

24/9 2009

Logi og Glóð tekin til starfa

Öll slökkvilið landsbyggðarinnar eru nú búin að fá til sín allt efni vegna forvarnarverkefnisins um Loga og Glóð á leikskólunum. Nýtt bókamerki með Loga og Glóð var hannað og fá allir 5 ára krakkar það að gjöf þegar slökkviliðið kemur í heimsókn.

Fyrstu slökkviliðin fara í heimsókn til leikskólanna núna í október og Logi og Glóð eru líka orðin spennt að hefjast handa í fræðslunni.

Þá geta allir heimsótt Loga og Glóð hér á heimasíðunni og fræðst um eldvarnir heimilanna. Þetta margmiðlunarverkefni um Loga og Glóð er nýjasta verkefnið sem EBÍ hefur stutt við á þessu ári.

Til viðbótar hefur félagið gefið út bækling um eldvarnir heimilanna ásamt því að gefa út kennsluefni um gróðurelda í samvinnu við Brunamálastofnun.

19/6 2009

Styrktarsjóður EBÍ 2009

Við viljum minna á að umsóknarfrestur umsókna í Styrktarsjóð EBÍ er til loka ágústmánaðar. Til úthlutunar eru 4 milljónir króna. Reglur og umsóknareyðublað má nálgast hér á heimasíðu félagsins.

23/3 2009

Ágóðahlutur 2009

Á aukafundi Fulltrúaráðs EBÍ þann 20. mars s.l. var samþykkt stefnumörkun um útgreiðslu ágóðahlutar til sveitarfélaganna fyrir árin 2009 og 2010. Samþykkt var að ágóðahlutur ársins 2009 yrði 300 milljónir króna. Ágóðahluturinn verður greiddur út 15. október n.k. og þá hefur félagið greitt til sveitarfélaganna í formi ágóðahlutar 3.230 milljónir frá árinu 1998. Ályktunina í heild sinni má finna hér á heimasíðunni.