Fréttir 2010

18/11 2010

EBÍ aðili að átaki í eldvörnum heimilanna

Eldvarnabandalagið, nýtt bandalag um auknar eldvarnir, var stofnað 1. júní 2010 og er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir heimilanna. Aðild að því eiga: Brunamálastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.

Eldvarnabandalagið hefur látið gera könnun um eldvarnir heimilanna og kemur m.a. fram þar að þorri heimila þarf að efla eldvarnir sínar. Þá gefur Eldvarnabandalagið út í dag ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir, handbók heimilisins um eldvarnir, og sendir bréf um eldvarnir til allra heimila í landinu í næstu viku.

Fréttatilkynninguna í heild sinni má sjá hér.

15/10 2010

EBÍ greiðir 300 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands greiðir í dag samtals 300 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum. EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Með framlagi þessa árs hefur félagið samtals greitt aðildarsveitarfélögunum rúma 3,6 milljarða króna.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða tæpar 40 milljónir króna. Til Kópavogs renna 26 milljónir, Reykjanesbær fær rúma 21 milljón í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 14 milljónir, Vestmannaeyjabær 12 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 10 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu.

Einn helsti tilgangur EBÍ er að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða og styðja alhliða forvarnarstarf í sveitarfélögum. Langstærsta verkefnið sem félagið hefur unnið að er forvarnarverkefni í leikskólum landsins þar sem slökkviálfarnir Logi og Glóð leika aðalhlutverkið. EBÍ hefur fjármagnað gerð vandaðs fræðsluefnis í þessu skyni fyrir öll slökkvilið landsbyggðarinnar frá haustinu 2007. Þá hefur félagið gefið út fræðslubæklinga um eldvarnir heimilanna sem standa slökkviliðum til boða endurgjaldslaust.

Nánari upplýsingar veitir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ. (Sími: 544-5070) og á heimasíðu EBÍ www.brunabot.is.

14/07 2010

Ágóðahlutur 2010

Stjórn EBÍ hefur ákveðið að greiddar verði út kr. 300 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ vegna ársins 2010. Er þetta gert á grundvelli samþykktar aukafundar fulltrúaráðs félagsins á síðasta ári.

Upphæð ágóðahlutarins vegna þessa árs er sama fjárhæð og greidd var út á síðasta ári. Með þessari greiðslu verður því búið að greiða út til aðildarsveitarfélaganna um 3,6 milljarða.

Greiðslan mun fara fram 15. október nk.

03/06 2010

Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök taka höndum saman

Samstaða um að efla eldvarnir heimila

Öflugur hópur tryggingafélaga, stofnana og félagasamtaka hefur tekið höndum saman um að stuðla að bættum eldvörnum heimilanna í landinu. Hópurinn hyggst gera átak í fræðslu um eldvarnir í haust en hann mun síðan starfa áfram og meta þörf fyrir frekari aðgerðir. Verkefnið nær til landsins alls og verður unnið í samvinnu við slökkvilið og fleiri aðila sem málið er skylt.

Á hverju ári verður mikið tjón á lífi, heilsu og eignum vegna eldsvoða í íbúðarhúsnæði. Ljóst er að verulega er unnt að draga úr þessu tjóni með því að efla eldvarnir, ekki síst með uppsetningu reykskynjara, en rannsóknir sýna að eldvörnum er mjög ábótavant á mörgum heimilum.

Andlát og alvarleg slys vegna eldsvoða undanfarin misseri eru aðalhvatinn að samstarfinu. Viðræður hófust snemma árs að frumkvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og þriðjudaginn 1. júní síðastliðinn skrifuðu eftirtaldir undir samning um myndun samstarfshóps:

Brunamálastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM, VÍS og Vörður tryggingar.

Hópurinn mun standa að átaki til að vekja athygli á mikilvægi eldvarna, gefa út vandað fræðsluefni og stuðla að auknum kröfum um eldvarnir í lögum og reglugerðum, meðal annars í leiguhúsnæði. Hann mun leita eftir samstarfi við fjölmarga aðila til að ná markmiðum sínum.

31/05 2010

Útskriftardagur Loga og Glóð á Akureyri

Um þessar mundir eru þúsundir leikskólabarna að útskrifast sem sérlegir aðstoðarmenn slökkviliðsins. Er þetta þriðja árið sem eldvarnarverkefnið með Loga og Glóð á leikskólum landsins hefur verið í gangi. EBÍ lætur slökkviliðum utan höfuðborgarsvæðisins í té verkefni og gögn fyrir leikskólabörn, en síðan eru það slökkviliðin sem heimsækja leikskólana og fræða krakkana.

Mikil ánægja er með verkefnið og hefur það gengið sérlega vel, og kunnum við slökkviliðsmönnum út um allt land miklar þakkir fyrir þeirra þátt í því að bæta eldvarnir þúsundir heimila um allt land. Enda hefur það sannað sig að krakkarnir eru allra bestu “áróðursmeistararnir”.

Slökkviliðið á Akureyri hefur alltaf haldið glæsilega vorhátíð og útskrift fyrir krakkana. Þá heimsækja öll leikskólabörn á Akureyri slökkvistöðina og fá m.a. að prófa búnað slökkviliðsins.

Frétt um heimsóknina á heimasíðu slökkviliðsins má sjá hér.

31/05 2010

Styrktarsjóður EBÍ

Stjórn EBÍ samþykkti á fundi sínum nýverið að þetta árið yrði ekki óskað eftir umsóknum í Styrktarsjóðinn heldur myndi stjórnin verja úthlutunarfé hans til sérstakra brýnna verkefna í sveitarfélögum.

Þessi ákvörðun er tekin þetta árið vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru nú hér á landi og er m.a. horft til þeirra hamfara sem hafa orðið í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Ákvörðun um ráðstöfun Styrktarsjóðsins vegna ársins 2010 á að liggja fyrir í síðasta lagi í október n.k.

11/03 2010

Ársreikningur EBÍ fyrir árið 2009

Ársreikningur ársins 2009 hefur verið samþykktur í stjórn félagsins og má nálgast hann í heild sinni undir flipanum “fjármál”.

Tap ársins er rúmar 19 milljónir króna. Kemur það til af því að niðurfærslur verðbréfaeignar félagsins voru um 80 milljónir á s.l. ári, á móti kemur innleystur hagnaður að upphæð kr. 60 milljónir. Heildareignir EBÍ eru tæpir 3,3 milljarðar, þar af eru skuldabréf upp á rúma 2,8 milljarðar og handbært fé 384 milljónir.

Heildarskuldir eru 619 milljónir og þar af er lífeyrisskuldbindingin við LSR 617 milljónir. Sameignarsjóðurinn er 29,2% af eigin fé og hefur hækkað um 1,32% milli ára.

11/03 2010

Ávöxtun eigna á árinu 2009

Heildarávöxtun eigna EBÍ var jákvæð um 0,3%. Ávöxtunin eftir eignaflokkum er eftirfarandi:

Bankainnistæður

11,4%

Skuldabréf

-0,4%

Innl. hlutabréfasjóðir

4,4%

Erlendir hlutabréfasjóðir

33,6%

Töluverðar niðurfærslur urðu á eignum félagsins í skuldabréfasjóðum sem eru enn lokaðir eftir hrun fjármálakerfisins í október 2008. Aðrar skuldabréfaeignir gáfu ágætis ávöxtun og náðu að vega tapið upp. Vonir standa til að félagið sé að stærstum hluta komið fyrir vind varðandi niðurfærslur eigna og einhver jákvæð ávöxtun verði á árinu 2010.

11/03 2010

Eignir EBÍ í lok árs 2009

Á árinu 2009 lækkuðu eignir félagsins um 272 milljónir, úr 3.553 milljónum niður í 3.282 milljónir. Þessi nettó skerðing sem verður á eignum félagsins frá s.l. ári er vegna útgreiðslu á 300 milljóna króna ágóðahlut sem greiddur var út til aðildarsveitarfélaga EBÍ í október s.l. Með þeirri greiðslu er búið að greiða 3,3 milljarða til sveitarfélaganna frá árinu 1998.

Í lok ársins 2009 var skipting í eignaflokka eftirfarandi:

Innlán í bönkum og sparisjóðum

21,7%

Skuldabréf:

- með ábyrgð ríkis

50,9%

- með ábyrgð sveitarfélaga

0,2%

- með ábyrgð fjármálafyrirtækja

2,8%

- með ábyrgð fyrirtækja

13,3%

- erlend skuldabréf

2,6%

Innlend hlutabréf

0,4%

Erlend hlutabréf

9,0%