Saga félagsins

Brunabótafélag Íslands hóf starfsemi í árdaga nýfengins viðskiptafrelsis. Í upphafi var því veittur einkaréttur til að brunatryggja húseignir utan Reykjavíkur. Eftir lagabreytingu á sjötta áratugnum hófst samkeppni við önnur vátryggingafélög. Í lok níunda áratugarins varð það helmingseigandi að öflugu félagi með stofnun Vátryggingafélags Íslands hf. Með nýrri löggjöf árið 1994 er því breytt í Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.

Brunabótafélag Íslands hefur frá upphafi verið í nánum tengslum við sveitarstjórnir. Bótasjóðir félagsins hafa verið ávaxtaðir, meðal annars í uppbyggingu brunavarna og í vatnsveituframkvæmdum. Fram til ársins 1994 var ráðherra æðsti yfirmaður félagsins. Nú fer fulltrúaráð, valið af sveitarstjórnum, með það vald.

Höfundur er Þórður H. Jónsson (f. 1930). Hann hóf störf hjá Brunabótafélagi Íslands 1954, aðstoðarforstjóri 1981–1989 og framkvæmdastjóri hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. 1989–1995.

Í aðfararorðum segir höfundur meðal annars:

Sögu félags sem starfað hefur í rúm 80 ár er hægt að segja á ýmsan hátt. Fjöldinn allur af minnisstæðu fólki hefur komið við sögu, bæði konur og karlar. Áratugum saman var ekki margmenni á aðalskrifstofu en margt af því fólki starfaði þar lengi. Í tímans rás hafa umboðsmenn félagsins skipt hundruðum og sett sitt mark á allt starfið ekki síður en þeir sem voru fastráðnir. Þótt þetta fólk sé ekki nafngreint nema fáir einir hefði félagið ekki markað sín spor án tilkomu þessa dugandi hóps.
Þegar Brunabótafélagið hafði starfað í 25 ár var gefið út merkilegt rit sem nefnist Brunabótafélag Íslands 25 ára. Höfundurinn er Arnór Sigurjónsson. Hefi ég stuðst við margt sem þar er skráð. Ingi R. Helgason flutti og mjög yfirgripsmiklar ræður á fundum fulltrúaráðsins. Þar rakti hann það helsta sem gerst hafði á milli funda og horfði til framtíðar. Mikill fengur hefur verið að þessum ræðum og ýmsum erindum sem hann lét frá sér fara. Fyrir hans tíð hefur ekki varðveist mikið slíkra gagna
Í mínum huga er saga Brunabótafélagsins einstök. Í upphafi tengdist hún sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hafist var handa um stofnun brunatryggingafélags til að bæta úr brýnni þörf landsmanna. Með lagasetningu voru húseigendur skyldaðir til að tryggja hjá félaginu. Með því móti var skapaður grundvöllur fjárhagslegrar getu félagsins. Ráðherra var æðsti yfirmaður þess. Eins og á öllum tímum voru til úrtölumenn í upphafi. Félagið stóð fljótlega traustum fótum, varð sterkt efnahagslega. Styrkleiki þess var nýttur til að efla brunavarnir í landinu. Brunabótafélagið, Brunavarnaeftirlitið og sveitarstjórnir tóku höndum saman og sameiginlega var auðveldara að ná árangri.
Breyttir tímar komu með ný viðhorf og byltingu. Brunabótafélagið hóf baráttu um viðskipti á hinum frjálsa markaði. Ekki voru fasteignatryggingar lengur uppistaðan í tryggingastofninum. En viðhorfið gagnvart sveitarstjórnum breyttist ekki. Eins og áður var stuðningurinn við þau það sem fyrst var horft til. Baráttan um viðskiptin harðnaði stöðugt og í þeim orrustum fengu margir skrámu og sumir lágu eftir í valnum. Lausnin var að áliti margra stærri eining. Brunabótafélagið tók því höndum saman við helsta keppinaut sinn um viðskiptavinina og stofnað var nýtt tryggingafélag. Samþykktir á meginlandi Evrópu kölluðu á breytingu á lögum Brunabótafélagsins. Í kjölfar þeirra verður Eignarhaldsfélagið að veruleika og sameignarsjóði er ætlað að taka við óvirkri eign tryggingataka. Fulltrúaráðið fær æðstu völd í félaginu, stjórnunarlega og fjárhagslega. Félagið selur hlut sinn í VÍS og leggur áherslu á stuðning við sveitarfélögin. 

Saga Brunabótafélags Íslands 1917 - 2000 

Þórður H. Jónsson, höfundur bókarinnar.

Stjórn EBÍ árið 2001. 

Í aftari röð f.v. Jónas Hallgrímsson, Valdimar Bragason,  Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri, Guðmundur Oddsson og Hreinn Pálsson.
Í fremri röð f.v. Ólafur Kristjánsson, Guðmundur Bjarnason, stjórnarformaður og Friðjón Þórðarson.

Sveinn Björnsson (1881–1952) fyrsti forstjóri Brunabótafélags Íslands.

Skrifstofa Brunabótafélagsins var fyrst til húsa á þriðju hæð í Austurstræti 7.

Tryggingaskjal útgefið 6. mars 1917 til handa Jóni Jónssyni, Stapakoti í Keflavík.

Mynd tekin af fundi fulltrúaráðsins árið 1977 á Hótel Sögu.

Mynd tekin af starfsfólki aðalskrifstofu Brunabótafélagsins á 50 ára afmæli félagsins árið 1967.

Mynd er sýnir afgreiðslu Brunabótafélagsins árið 1960.

Hópurinn sem vann að samningi um stofnun Vátryggingafélags Íslands hf.

F.v.: Frá Samvinnutryggingum Kolbeinn Jóhannsson endurskoðandi, Benedikt Sigurðsson og Hallgrímur Sigurðsson. Frá Brunabótafélaginu Þórður H. Jónsson, Ólafur Nilsson endurskoðandi og Hilmar Pálsson.  Tilbúnir að undirrita samkomulagið eru þeir Axel Gíslason, forstjóri Samvinnutrygginga og Ingi R. Helgason, forstjóri Brunabótafélagsins.

Mynd tekin 13. febrúrar 1985 þegar tilkynnt var um stofnun BÍ-líftryggingar gt. 

F.v.: Tore Melgård, í stjórn líftryggingafélags Storebrands, Ingi R. Helgason, forstjóri, Jostein Sörvoll, aðstoðarforstjóri líftryggingafélags Storebrand og Stefán Reykjalín stjórnarformaður.

Þann 14. mars 1997 var undirritaður samningur um kauprétt og kaup á eignarhluta í áföngum á hlutabréfum Brunabótafélags Íslands í VÍS. 

Myndin sýnir er bankastjórarnir Halldór Guðbjarnarson og Sverrir Hermannsson, Kjartan Gunnarsson, formaður bankaráðs, Hilmar Pálsson, forstjóri Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands, og Björgvin Vilmundarson bankastjóri undirrita samninginn.

Myndin er af aldargamalli dælu sem varðveitt er á slökkvistöðinni á Eskifirði.

Slökkviáhöld og slökkvistöð Borgarness 1934.

Brunabótafélagið keypti þrjár vörubifreiðar og byggði Erlendur Halldórsson yfir bílana og breytti þeim í slökkvibifreiðar. 

Ein bifreiðin fór til Ísafjarðar, önnur til Vestmannaeyja og sú þriðja til Akraness.  Bifreiðarnar þóttu henta vel á þessum stöðum þar sem þær voru fjórhjóladrifnar og áttu auðvelt með að komast í fjörur og ná þannig í sjó til slökkvistarfa.