Reglur fyrir Styrktarsjóð EBÍ
Samþykktar í stjórn EBÍ 9. september 2016
1. gr.
Starfrækja skal styrktarsjóð innan vébanda Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands sem nefnist Styrktarsjóður EBÍ.
2. gr.
Tilgangur sjóðsins er að styðja og styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum.
3. gr.
Þau sveitarfélög sem aðild eiga að fulltrúaráði EBÍ geta sent inn eina umsókn um styrk fyrir tiltekin verkefni eða vinnuhóp.
Heimilt er að sveitarfélög, tvö eða fleiri, sameinist um verkefni sem sótt er um styrk út á.
Að öllu jöfnu getur sveitarfélag ekki fengið úthlutað styrk tvö ár í röð.
4. gr.
Hlutfall styrkja skal aldrei vera hærra en sem nemur 50% af áætluðum heildarkostnaði. Heimilt er að greiða út styrkfjárhæð eftir framgangi verks.
5. gr.
Stjórn EBÍ setur þessar reglur og fer með stjórn sjóðsins. Stjórn er heimilt að setja verkefni/rannsóknir í forgang sem geta nýst öðrum sveitarfélögum og/eða hafa almenna skírskotun.
Almenn rekstrarverkefni sveitarfélaga eru ekki styrkhæf.
6. gr.
Stjórn EBÍ er heimilt að verja og ákveða upphæð til Styrktarsjóðsins sem taki mið af árlegri ágóðahlutagreiðslu til aðildarsveitarfélaganna, þó aldrei lægri upphæð en fimm milljónum króna árlega.
7. gr.
Umsóknarfrestur er til aprílloka og skal umsóknum skilað inn á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Með umsókninni skal fylgja greinagóð lýsing á verkefninu með verkáætlun, tímaáætlun og kostnaðaráætlun.
Úthlutun styrkja skal vera lokið fyrir lok júnímánaðar.
8. gr.
Að verkefni loknu skal viðkomandi sveitarfélag/styrkþegi gera EBÍ grein fyrir ráðstöfun fjárins og árangri verkefnisins. Sveitarfélag getur ekki vænst þess að fá aftur styrk ef greinargerð um framgang verkefnisins hefur ekki verið skilað inn.
9. gr.
EBÍ áskilur sér rétt til að skýra opinberlega frá viðkomandi verkefni, stuðningi EBÍ og árangri verksins, en að öðru leyti eignast EBÍ engan rétt vegna fjárframlagsins.