Traustur bakhjarl í forvarnastarfi
Einn helsti tilgangur EBÍ er að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða og styðja alhliða forvarnastarf í sveitarfélögum. EBÍ ver talsverðum fjármunum ár hvert í margs konar forvarnaverkefni á sviði brunamála í samvinnu við slökkviliðin og fleiri. Á síðastliðnum fimm árum hefur um 20 milljónum króna verið varið í slík verkefni. Þörfin er ljós því rannsóknir sýna að mjög skortir á að eldvarnir íslenskra heimila séu fullnægjandi.
Langstærsta verkefnið sem félagið hefur unnið að er forvarnaverkefni í leikskólum landsins. Um er að ræða samstarfsverkefni slökkviliðanna og leikskólanna þar sem slökkviálfarnir Logi og Glóð leika aðalhlutverkið. Leikskólabörnin og fjölskyldur þeirra fá fræðslu um eldvarnir heimilanna og leikskólarnir ábyrgjast að eldvarnir á leikskólanum séu í lagi. EBÍ hefur fjármagnað gerð vandaðs fræðsluefnis í þessu skyni fyrir öll slökkvilið á landsbyggðinni frá haustinu 2007.
Félagið hefur gefið út fræðslubæklinga um eldvarnir heimilanna á ýmsum tungumálum, sem sérstaklega eru ætlaðir innflytjendum. Árið 2009 gaf félagið út bækling um eldvarnir heimilisins í stóru upplagi og nutu slökkvilið um allt land góðs af. Dæmi voru um að slökkvilið dreifðu bæklingnum inn á hvert heimili á sínu starfssvæði.
Þá hefur félagið um árabil stutt dyggilega við hið árlega Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, auk þess að veita styrk til meistaranema vegna rannsókna á sviði brunamála. Félagið kom einnig að útgáfu kennsluefnis um viðbrögð við gróðureldum í samvinnu við Brunamálaskólann.