Logi og Glóð heimsækja leikskólana

Slökkviálfarnir Logi og Glóð hafa heimsótt leikskóla landsins í fylgd vaskra slökkviliðsmanna og frætt elstu börnin um eldvarnir ár hvert frá því um haustið 2007. Þau tvíburasystkinin urðu fyrst sérstakir aðstoðarmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og EBÍ en síðan tók EBÍ að sér að tryggja slökkviliðunum utan höfuðborgarsvæðisins þjónustu þeirra. Í því skyni lét EBÍ útbúa mikið af vönduðu fræðsluefni fyrir leikskólana og krakkana og lætur slökkviliðunum það í té án endurgjalds á hverju ári. Um er að ræða umfangsmesta og kostnaðarsamasta forvarnaverkefni EBÍ frá upphafi en jafnframt það langskemmtilegasta.


Fátt er vitað um Loga og Glóð enn sem komið er annað en að þau hafa sérstaka hæfileika til að verjast eldi og eru mjög dugleg að koma krökkum og fjölskyldum þeirra í skilning um mikilvægi eldvarna.

Markmiðið með þessu samstarfsverkefni EBÍ og slökkviliðanna er að veita börnunum fyrstu fræðslu um eldvarnir og stuðla að bættum eldvörnum bæði í leikskólunum og á heimilum barnanna. Ekki veitir af því rannsóknir sýna að eldvörnum á mörgum íslenskum heimilum er mjög ábótavant.

Þegar Logi, Glóð og slökkviliðsmennirnir heimsækja leikskólana fá krakkarnir fallega möppu sem heitir Slökkviliðið mitt. Í henni eru meðal annars þrautir og verkefni og sérstakur reitur þar sem börnin geta sett mynd af sér með slökkviliðshjálm. Á bakhliðinni eru áríðandi skilaboð til foreldranna. Krakkarnir taka möppuna því með sér heim og sýna pabba og mömmu. Þau fá líka bækling með sér heim þar sem helstu atriði eldvarna eru útskýrð. Síðast en ekki síst fær hvert barn áritað viðurkenningarskjal þar sem slökkviliðsstjóri býður það velkomið í hóp aðstoðarmanna slökkviliðsins.

Leikskólarnir sjálfir fá líka ýmislegt gagnlegt til að bæta eldvarnirnar og svo taka börn og fullorðnir höndum saman til að sjá um að þær séu alltaf í lagi.

Ítarlegar upplýsingar um verkefnið og gögnin sem því fylgja er að finna hér.