Brunavörður

Þann 3. júlí 2012 var undirritaður samningur milli Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands, Mannvirkjastofnunar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um þróun hugbúnaðar til að efla eftirlit með brunavörnum á Íslandi. Hugbúnaðurinn hefur fengið heitið „Brunavörður“ og kemur til með að halda utan um allt sem tengist brunavörnum í byggingum og ástandi þeirra. Gert er ráð fyrir að fyrsta útgáfa hans verði komin í notkun í desember 2014. Vonast er til að hugbúnaðurinn eigi eftir að auðvelda alla vinnu við brunaeftirlit, samræma vinnubrögð og gera öllum slökkviliðum í landinu og þjónustuaðilum brunavarna kleift að skrá og nálgast nauðsynlegar upplýsingar miðlægt. Miðlægur gagnagrunnur mun þannig geyma og halda utanum gögn um allar byggingar á Íslandi sem heyra undir lög um brunavarnir og eru eftirlitsskyldar. Þar verða skráðar allar skoðanir slökkviliða og þjónustuaðila brunavarna, öll mál sem verða til vegna skoðana og allar aðgerðir sem framkvæmdar eru innan málanna.

Aðkoma EBÍ að málinu tryggir aðgang allra slökkviliða að hugbúnaðinum án endurgjalds og er þetta stærsta einstaka forvarnarverkefni félagsins.