Fréttir 2008

15/10 2008

EBÍ greiðir 450 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands hefur ákveðið á grundvelli samþykkta fulltrúaráðs félagsins að greiða samtals 450 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar í ár. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum. Aðildarsveitarfélögin eru 63.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða rúmar 50 milljónir króna. Til Kópavogs renna tæpar 39 milljónir, Reykjanesbær fær tæpar 32 milljónir í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 21 milljón, Vestmannaeyjabær 18 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 15 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu. Ágóðahlutur aðildarsveitarfélaganna frá EBÍ hefur m.a. orðið til þess að nokkur sveitarfélög hafa endurnýjað slökkvibifreiðar sínar svo og annan slökkvibúnað.

EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Slíkar greiðslur hófust árið 1934 með samningi Brunabótafélags Íslands við sveitarfélög um fjármögnun slökkvitækja. Árið 1955 var gefin út sérstök reglugerð um þessar greiðslur, og aftur árið 1985. Með framlagi þessa árs hefur EBÍ samtals greitt aðildarsveitarfélögunum tæpa 3,0 milljarða króna.

Nánari upplýsingar veitir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ. (Sími: 544-5070).

22/05 2008

Logi og Glóð

Í vetur hafa slökkvilið landsins unnið að forvarnarverkefni í brunamálum á leikskólum landsins. EBÍ kostaði verkefnið á landsvísu, sjá frétt hér á síðunni frá 2.10.2007. Þeir sem komið hafa að verkefninu, bæði slökkviliðsmenn og starfsfólk leikskóla, eru afar ánægð með verkefnið og þá fræðslu sem það býður upp á.

Á dögunum var haldin vegleg hátíð hjá Slökkviliðinu á Akureyri þar sem útskrift sérlegra aðstoðarmanna slökkviliðanna var fagnað.

Sjá nánar hér á heimsíðu Slökkviliðs Akureyrar

22/05 2008

Ársreikningur EBÍ

Ársreikningur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands liggur nú fyrir, en hann var samþykktur í stjórn félagsins þann 29. febrúar s.l. Er hann aðgengilegur hér á síðunni undir flipanum “Fjármál”.

Árið 2007 kom þokkalega út fyrir félagið, þrátt fyrir erfiðar aðstæður á verðbréfamörkuðum. Þrátt fyrir það tókst að ná markmiðum um útgreiðslu ágóðahlutar til sveitarfélaganna, án þess að skerða höfuðstól eigna. Þá var nafnávöxtun heildareigna félagsins 10,36% á s.l. ári.

22/05 2008

Styrktarsjóður

Við viljum minna á að umsóknarfrestur umsókna í Styrktarsjóð EBÍ er til loka ágústmánaðar. Nýjar reglur voru samþykktar á s.l. ári fyrir Styrkarsjóðinn, einnig hefur verið útbúið umsóknareyðublað sem við biðjum umsækjendur vinsamlegast um að nota.

Nálgast má umsóknareyðublaðið hér.