Fréttir 2019

16/10 2019

Aðalfundur fulltrúaráðs EBÍ

Aðalfundur fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands var haldinn föstudaginn 20. september s.l. Á fundinum var farið yfir rekstur og starfsemi EBÍ s.l. ár. Kom m.a. fram að EBÍ vinnur að ýmsum forvarnarverkefnum í brunamálum og eru m.a. helstu samstarfsaðilar félagsins öll slökkvilið landsins. Þá er félagið í viðamiklu samstarfsverkefni með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Mannvirkjastofnun um skjalfestingu öryggis mannvirkja. EBÍ vinnur náið með Eldvarnabandalaginu og er m.a. eitt stærsta verkefni þess samstarfsverkefni við sveitarfélög um eigið eftirlit í stofnunum sveitarfélaganna. Það verkefni hefur gengið afar vel og hefur stuðlað að vitundarvakningu um forvarnir í brunamálum í ýmsum sveitarfélögum landsins.


Ný stjórn EBÍ fyrir tímabilið 2019-2023 var kjörin.
Í henni sitja:
Ása Helgadóttir, Héraðsnefnd Borgarfjarðar
Björn Ingimarsson, Fljótsdalshéraði
Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Akureyri
Margrét Friðriksdóttir, Kópavogi
Stefán Jónasson, Vestmannaeyjum
Silja Jóhannesdóttir, Norðurþingi


16/10 2019

50 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 50 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2019.
Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Til að minnka líkur á að gengið sé á eigið fé félagsins til lengri tíma og til að jafna út sveiflur í greiðslu ágóðahluta samþykkti stjórnin að miða greiðslu ágóðahlutans við meðalhækkun eigin fjár síðustu þriggja ára. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.
Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.
Með útgreiðslu þessa hafa á núvirði verið greiddir út 6,7 milljarðar til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.

Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2019.


27/05 2019

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ

Á fundi sínum þann 10. maí s.l. úthlutaði stjórn EBÍ úr Styrktarsjóði EBÍ. Veittir voru 10 styrkir samtals að upphæð kr. 5 milljónir. Dreifðust styrkirnir á hina ýmsu staði vítt og breitt um landið.

Úthlutun Styrktarsjóðsins má nálgast hér.


18/03 2019

Styrktarsjóður EBÍ

Styrktarsjóður EBÍ úthlutar á hverju ári 5 milljónum króna til ýmissa framfaraverkefna sveitarfélaga. Aðildarsveitarfélög EBÍ geta sótt um styrk. Reglur Styrktarsjóðsins eru aðgengilegar hér á síðunni og er umsóknarfrestur til 30. apríl nk.

Umsóknareyðublaðið má nálgast hér.


18/03 2019

Ný teiknimynd um Loga og Glóð

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands ákvað í tilefni af 100 ára afmæli Brunabótafélags Íslands árið 2017 að gera teiknimynd um Loga og Glóð í samvinnu við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Slökkvilið um land allt heimsækja leikskóla landsins og sýna teiknimyndina við það tækifæri, en öll 6 ára börn fá fræðslu um eldvarnir í þessari heimsókn.Hér má sjá myndina á www.youtube.com

18/03 2019

Ársreikningur EBÍ

Á fundi sínum þann 8. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2018. Heildartekjur félagsins voru 147 milljónir og rekstrargjöld 119 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 55,2 milljónir og tap félagsins því 27,2 milljónir. Heildareignir félagsins eru tæpar 3,1 milljarðar og eigið fé um 2 milljarðar. Útkoma ársins er töluverð breyting frá hagnaðii sem var á s.l. ári. Ástæðurnar eru aðallega þær að ávöxtun var lakari á árinu 2018 en árinu þar á undan. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.

Nafnvöxtun eigna félagsins var 4,6% en raunávöxtun 1,32%. Erlend skuldabréf komu best út ásamt innlendum skuldabréfum. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 61,8%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 10,2% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 9,0% safnsins.


18/03 2019

Fjárfestingastefna EBÍ

Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2019 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 8. febrúar s.l.

Nokkrar breytingar voru gerðar á stefnunni bæði er varðar hlutföll í eignaflokkum svo og breytingar á flokkun eignanna.

Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.

Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.

Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.


18/03 2019

Áframhaldandi samstarf EBÍ, MVS og SHS um þróun hugbúnaðar til að efla eftirlit með brunavörnum

Þann 30. nóvember s.l. var undirritaður samstarfssamningur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands, Mannvirkjastofnunar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um þróun hugbúnaðar til að efla eftirlit með brunavörnum á Íslandi. Er hér um að ræða áframhaldandi samstarf þessara aðila byggt á fyrri samningi frá árinu 2012 um þróun hugbúnaðar sem fékk nafnið „Brunavörður“. Það verkefni tókst ákaflega vel og olli byltingu í eldvarnaeftirliti sveitarfélaga.

Meginmarkmið þessa samnings er að búa til rafræna gátt þar sem eigendur/forráðamenn geta skráð stöðu brunavarna í byggingum.

Afurð verkefnisins verður vefur þar sem eigendur og forráðamenn bygginga og eftir atvikum þjónustuaðilar brunavarna geta staðfest stöðu brunavarna í byggingum með reglubundnu millibili.

Þessi vefur mun tengjast Brunaverði til að eldvarnaeftirlit sveitarfélaga geti fylgst með skráningu vegna brunavarna í byggingum.

Verkefnið felst í markmiðssetningu, verkferlum og skipulagi, hönnun, smíði og innleiðingu vefjarins, sem og kennslu í notkun hans.

Gert er ráð fyrir að lokaafurð verði tilbúin og innleiðingu lokið í árslok 2021.