Fréttir 2020

18/11 2020

Borgarbúar, unga fólkið og leigjendur með miklu lakari eldvarnir

Eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum í nágranna-sveitarfélögum og þó sérstaklega miðað við heimili utan höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið. Fjöldi reykskynjara er að meðaltali 2,8 á heimilum í höfuðborginni en 3,7 á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er mun algengara að enginn eða aðeins einn reykskynjari sé á heimilum í Reykjavík en utan höfuðborgarsvæðisins.
Sjá nánar hér.


22/10 2020

Viljayfirlýsing um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands var eitt af fyrstu ellefu fyrirtækjum í Kópavogi sem skrifaði undir viljayfirlýsingu um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun þann 23. september s.l. Það er Markaðsstofa Kópavogs sem heldur utan um verkefnið í samvinnu við Kópavogsbæ, sem hefur unnið að innleiðingu markmiðanna. Er hér um mikið framfaraskref að ræða og afar mikilvægt verkefni.

Sjá nánar hér á vef Kópavogsbæjar.


22/10 2020

70 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 70 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2020.


Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Til að minnka líkur á að gengið sé á eigið fé félagsins til lengri tíma og til að jafna út sveiflur í greiðslu ágóðahluta samþykkti stjórnin að miða greiðslu ágóðahlutans við meðalhækkun eigin fjár síðustu þriggja ára. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.


Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það mjög ánægjulegt að nú var mögulegt að greiða út hærra framlag en lágmarksframlagið er. Þá bendir hún á að það er ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.


Með útgreiðslu þessa hafa á núvirði verið greiddir út 6,9 milljarðar til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.

Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2020.


15/6 2020

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ lokið

Á fundi stjórnar EBÍ þann 29. maí s.l. var úthlutað styrkjum úr Styrktarsjóði EBÍ. Mikill fjöldi umsókna barst sjóðnum. Alls var sótt um styrk til 23ja verkefna frá jafn mörgum sveitarfélögum. Til úthlutunar komu fimm milljónir og voru samþykktar styrkveitingar til 11 verkefna. Styrktarsjóður EBÍ hefur verið starfræktur frá árinu 1996. Samtals hefur verið úthlutað styrkjum að upphæð 97 milljónnir til 270 verkefna víðsvegar um landið. Lista yfir úthlutanir sjóðsins frá upphafi er að finna á heimasíðunni undir flipanum „Styrktarsjóður“


25/3 2020

Styrktarsjóður EBÍ

Styrktarsjóður EBÍ úthlutar á hverju ári 5 milljónum króna til ýmissa framfaraverkefna sveitarfélaga. Aðildarsveitarfélög EBÍ geta sótt um styrk. Reglur Styrktarsjóðsins eru aðgengilegar hér á síðunni og er umsóknarfrestur til 30. apríl nk.


Umsóknareyðublaðið má nálgast hér.


25/3 2020

Ársreikningur EBÍ

Á fundi sínum þann 7. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2019. Heildartekjur félagsins voru 372,8 milljónir og rekstrargjöld 91,4 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 75 milljónir og hagnaður félagsins því 206,3 milljónir. Heildareignir félagsins eru rúmir 3,2 milljarðar og eigið fé um 2,2 milljarðar. Útkoma ársins er töluverð breyting frá tapi sem var á s.l. ári. Ástæðurnar eru aðallega þær að ávöxtun var afar góða á árinu.


Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.


Nafnvöxtun eigna félagsins var 12,25% en raunávöxtun 9,29%. Erlend hlutabréf komu best út ásamt innlendum hlutabréfum. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 60,6%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 10,9% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 8,3% safnsins.


25/3 2020

Fjárfestingastefna EBÍ

Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2020 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 7. febrúar s.l.


Nokkrar breytingar voru gerðar á stefnunni bæði er varðar hlutföll í eignaflokkum svo og breytingar á flokkun eignanna. Hlutfall ríkistryggðra bréfa lækkar en hlutfall annarra skuldabréfaflokka hækkar á móti.


Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.


Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.


Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.