Fréttir 2018

26/11 2018

Ný könnun Gallup fyrir LSS og Eldvarnabandalagið
Ungt fólk býr við miklu lakari eldvarnir en aðrir

Fólk á aldrinum 25-34 ára stendur öðrum langt að baki þegar kemur að eldvörnum á heimilinu samkvæmt könnun sem Gallup hefur gert fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eldvarnabandalagið. Hvort sem litið er til fjölda reykskynjara eða slökkvibúnaðar stendur þessi aldurshópur mun lakar að vígi en aðrir. Kannanir sem Gallup hefur gert reglulega á undanförnum árum sýna þó að heimilin efla almennt eldvarnir og eru þannig betur búin undir að bregðast við eldsvoða. Um helmingur heimila hefur nú þann eldvarnabúnað sem mælt er með, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.

Fræðslan skilar árangri
- Það er vissulega sláandi að ungt fólk, sem er líklegt til að hafa ung börn á heimilinu, er sinnulaust gagnvart nauðsynlegum eldvörnum. Það er umhugsunarefni nú þegar við erum að hefja árlegt Eldvarnaátak slökkviliðsmanna í grunnskólum um allt land. Hins vegar sýna kannanir Gallup okkur að fræðsla um eldvarnir skilar sér hægt og bítandi þegar á heildina er litið og ljóst er að stór hluti almennings er mjög meðvitaður um mikilvægi eldvarna á heimilinu, segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSS. Eldvarnaátakið hefst í Lækjarskóla í Hafnarfirði fimmtudaginn 22. nóvember kl. 10.30.

Eldvarnir lakastar hjá 25-34 ára
Tíu prósent svarenda á aldrinum 25-34 ára hafa engan reykskynjara og önnur 24 prósent aðeins einn, samkvæmt könnun Gallup, en hlutfall þeirra sem hafa engan reykskynjara er mun lægra í öðrum aldurshópum, allt niður í þrjú prósent. Sömu sögu er að segja þegar litið er til slökkvitækja og eldvarnateppa á heimilum. Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra til að hafa slíkan búnað á heimilinu en aðrir. Þannig segjast aðeins 49 prósent unga fólksins eiga eldvarnateppi en þetta hlutfall er allt að 66 prósent í öðrum aldurshópum og yfir 60 prósent að meðaltali.

Athyglisvert er að dregið hefur saman með leigjendum og þeim sem búa í eigin húsnæði hvað varðar slökkvitækjaeign miðað við fyrri kannanir enda hefur nú verið bundið í lög að slökkvitæki skuli vera í leiguhúsnæði.

Helstu niðurstöður könnunar Gallup eru þessar:
• Á um helmingi heimila eru allt í senn reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi.
• Á 24 prósent heimila er enginn eða aðeins einn reykskynjari (38,4 prósent 2006).
• Heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri hefur á sama tíma fjölgað úr 21,5 prósent árið 2006 í 33,3 prósent nú.
• Slökkvitæki eru á um 74 prósent heimila og hefur þetta hlutfall aldrei mælst hærra.
• Eldvarnir eru að jafnaði öflugastar hjá þeim sem búa í einbýli en lakastar hjá þeim sem búa í fjölbýli.

Eldvarnaátakið hefst sem fyrr segir 22. nóvember og stendur fram í byrjun aðventu. Slökkviliðsmenn heimsækja þá nemendur í 3. bekk grunnskóla um allt land og fræða þá um eldvarnir. Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.


18/10 2018

50 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 50 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2018.

Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Til að minnka líkur á að gengið sé á eigið fé félagsins til lengri tíma og til að jafna út sveiflur í greiðslu ágóðahluta samþykkti stjórnin að miða greiðslu ágóðahlutans við meðalhækkun eigin fjár síðustu þriggja ára. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.

Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.

Með útgreiðslu þessa árs þann 30. október n.k. hafa á núvirði verið greiddir út 6,4 milljarðar til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar. Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2018.


22/06 2018

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ

Nýverið samþykkti stjórn EBÍ úthlutun úr Styrktarsjóði félagsins. Samþykktar voru 13 styrkveitingar samtals að upphæð 5 milljónir króna. Eru þetta verkefni af ýmsum toga vítt og breitt um landið. Listi yfir úthlutaða styrki 2018 má finna hér.


04/04 2018

Ársreikningur EBÍ

Á fundi sínum þann 9. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2017. Heildartekjur félagsins voru 228 milljónir og rekstrargjöld 137 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 90,7 milljónir og hagnaður félagsins því 35,9 milljónir. Heildareignir félagsins er rúmur 3,1 milljarður og eigið fé tæpir 2,2 milljarðar. Útkoma ársins er mikil breyting frá tapi sem var á s.l. ári. Ástæðurnar eru aðallega þær að ávöxtun var mjög góð og töluverð lækkun var milli ára vegna gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.

Nafnvöxtun eigna félagsins var 7,79% en raunávöxtun 5,98%. Var árið gott skuldabréfaár og var ávöxtun þeirra afar góð. Þá komu erlendir hlutabréfasjóðir líka vel út. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 66,4%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 10,6% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 9,3% safnsins.


04/04 2018

Fjárfestingastefna EBÍ

Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2018 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 9. febrúar s.l.

Nokkrar breytingar voru gerðar á stefnunni bæði er varðar hlutföll í eignaflokkum svo og breytingar á flokkun eignanna.

Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.

Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.

Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.


21/03 2018

Skagafjörður eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum

Sveitarfélagið Skagafjörður gerði í gær samning við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Jafnframt innleiðir Skagafjörður verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um varúðarráðstafanir vegna logavinnu.

Áður hafa Akranes, Húnaþing vestra, Akureyri, Fjarðabyggð, Brunavarnir Austurlands, Vestmannaeyjabær og Dalvíkurbyggð innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið. Samkvæmt sameiginlegu árangursmati fyrir verkefnin á Akureyri og í Fjarðabyggð er ótvíræður árangur af verkefninu.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins frá og með 1. október næstkomandi.

Þá fá allir starfsmenn sveitarfélagsins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds. Brunavarnir Skagafjarðar munu annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk.

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, segist fagna samstarfinu við Eldvarnabandalagið.
– Önnur sveitarfélög hafa mjög jákvæða reynslu af sambærilegum verkefnum og ég er sannfærð um að þetta samstarf muni stuðla að auknum eldvörnum á vinnustöðum sveitarfélagsins og heimilum starfsfólks, segir Ásta Björg.


19/03 2018

Tólf sveitarfélög hafa innleitt eigið eldvarnareftirlit

Alls hafa tólf sveitarfélög gert samninga við Eldvarnabandalagið um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits á undanförnum misserum og er ljóst að þeim mun fjölga á næstunni. Áætlað er að nær fimm þúsund starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga hafi fengið fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima í tengslum við verkefnið. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar verkefnastjóra á ársfundi Eldvarnabandalagsins sem haldinn var hjá VÍS síðastliðinn föstudag.

Ársfundurinn var sá áttundi í röðinni og var hann vel sóttur. Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austurlands, flutti erindi um eldvarnir í landbúnaði og Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, fjallaði um eldvarnir í sjávarútvegi. Þá ræddi Elfa S. Leifsdóttir, sálfræðingur hjá Rauða krossinum, um sálræn eftirköst eldsvoða á heimilum og Kristján Rúrik Vilhelmsson, starfsmaður Mannvirkjastofnunar, fór yfir brunatjón síðasta árs. Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum einstaklinga hjá VÍS, var fundarstjóri.

Samstarf við sveitarfélög hefur verið meðal helstu verkefna Eldvarnabandalagsins á undanförnum árum. Það hófst sem þróunarverkefni á Akranesi 2015 en síðan hafa ellefu önnur sveitarfélög innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Samstarfi við Akureyrarbæ, Fjarðabyggð og Húnaþing vestra er lokið og bendir sameiginlegt árangursmat ótvírætt til þess að verkefnin hafi skilað árangri, hvort sem litið er til eldvarna á vinnustöðum sveitarfélaganna eða heimilum starfsmanna.

Samstarf við Vestmannaeyjabæ, Dalvíkurbyggð og sveitarfélögin sex sem standa að Brunavörnum Austurlands stendur yfir. Eigið eldvarnaeftirlit hefur verið innleitt í stofnunum sveitarfélaganna og starfsmenn hafa fengið fræðslu um eldvarnir heima og á vinnustað. Vel á annað hundrað eldvarnafulltrúar annast nú mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit á vegum sveitarfélaganna.