Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands

Samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs EBÍ 5. október 2007

Ávöxtun eigin fjár EBÍ er mikilvægur þáttur í rekstri félagsins sbr. ákvæði í 3 gr. laga og samþykkta EBÍ um tilgang og starfsemi félagsins.

Fjárfestingastefna tekur mið af þeim lögum og samþykktum sem félagið starfar eftir, svo og þeim markmiðum sem sett hafa verið varðandi greiðslu ágóðahluta til aðildarsveitarfélaganna.

Markmið fjárfestingastefnu

Stjórn EBÍ fór í gegnum ítarlegt vinnuferli við mótun fjárfestingastefnu félagsins þar sem áhersla var lögð á að skilgreina markmið og ákvarða stefnu hvað varðar fjárfestingar félagsins.

Niðurstaða vinnuferlis við mótun fjárfestingastefnu var að árlega skuli miða við að ávöxtun eignasafns félagsins standi undir lágmarksútgreiðslum og að lágmarka skuli líkur á því að skerða þurfi höfuððstól milli ára. Skilgreint viðmið félagsins er því lágmarksávöxtun/lágmarksskuldbinding á hverjum tíma. Stefnt er að því að nýta vikmörk fjárfestingastefnu með tilliti til markaðsaðstæðna og stöðu eignasafns gagnvart settum markmiðum hverju sinni.

Gert er ráð fyrir að innlent hlutabréfasafn félagsins verði með yfirvigt í fjármála- og tryggingargeiranum m.a. vegna lagalegra skilyrða í 3 gr. laga um EBÍ og til lengri tíma er stefnt á að auka áhættudreifingu eignasafns með fjárfestingum í öðrum félögum í Kauphöll Íslands.

Gert er ráð fyrir að líftími skuldabréfasafns sé um 3-7 ár og miðast fjárfestingar skuldabréfasafns við skuldabréf ríkis, sveitarfélaga, banka eða sparisjóða svo og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll.

Í samsetningu erlends hlutabréfasafns sjóðsins er tekið mið af eignaskiptingu heimsvísitölu hlutabréfa (MSCI World).

Félagið setur sér markmið um að draga úr áhættu sem felst í sveiflu gjaldmiðla á erlendar eignir með virkri stýringu á gjaldeyrisáhættu þar sem heimildir varna ná frá 0-50% af erlendum eignum.

Stefnt er að því að hlutfall eigna verði sem hér segir: 

Verðbréfaflokkur

Lágmark

Markmið

Hámark

Skuldabréf og innlán

50%

70%

90%

Innlend hlutabréf

10%

20%

40%

Erlend hlutabréf

5%

10%

20%

Stjórn EBÍ hefur heimild til að ákveða nánari innbyrðis skiptingu innan hvers eignaflokks. Hér er átt við t.d. hversu mikið skal fjárfesta í hlutabréfum einstakra fyrirtækja og hver skiptingin er milli skuldabréfa annars vegar og innlána hins vegar.

Fjárfestingastefna félagsins lýsir í megindráttum stefnumörkun um ávöxtun fjármuna félagsins og þeirri hugsanlegu áhættu sem tekin er miðað af við eignasamsetningu og tekur stefnan mið af því að horft er til langs tíma.

Mörkuð var sú stefna á fulltrúaráðsfundi félagsins 1998 að greiða út ágóðahlut til aðildarsveitarfélaganna. Árlega skal greiða út ágóðahlut samkvæmt stefnumörkuninni frá 1998 og samþykkt aðalfundar fulltrúaráðsins frá 3. október 2003. Stefnt er að því að árlegar greiðslur til aðildarsveitarfélaga verði ekki undir 300 milljónum króna en stjórn sjóðsins getur tekið ákvörðun um greiðslu viðbótarágóðahlutar.